143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:50]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir. Hvað er einfalt og hvað er ekki einfalt? Ég sagði það í niðurlagi ræðu minnar að ekki væru margir leikir í stöðunni ef haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla og hún færi þannig að ríkisstjórnin fengi ekki vilja sínum framgengt að slíta ætti þessum aðildarviðræðum. Ég legg það svo sem ekki upp sem eitthvert skilyrði að hún fari frá. Ég hef ekki þá trú og kannski er ég of barnsleg í einfeldni minni að halda að menn geti ekki farið samningaleið við Evrópusambandið þó að þeir vilji ekki endilega fara þangað inn sjálfir. Ég held nefnilega að það gætu einmitt verið bestu samningamennirnir sem eru ekkert sérstaklega áfram um að við förum inn í Evrópusambandið. Þeir mundu kannski þannig tryggja betur hag okkar til allrar framtíðar, við værum þá alla vega ekki að senda þangað einhvern jákór sem margir hafa verið hræddir við.

Ég vil ekki líta svo á að það sé endilega svarið við öllum okkar vandamálum að núverandi ríkisstjórn fari frá, þó að það kunni að vera eitthvað sem maður hefur í flimtingum. Við viljum auðvitað byggja upp stöðugleika og við viljum byggja upp stöðugt stjórnmálakerfi þar sem við getum haldið kosningar á fjögurra ára fresti og það sem fólk segir í aðdraganda kosninga hafi einhverja merkingu. Það er ekki sérstakt kappsmál fyrir mig eða aðra félaga mína í Bjartri framtíð að búa til umhverfi þar sem allt logar í illdeilum og leiðindum og óstöðugleika sem hefur gríðarleg áhrif á allt okkar samfélag. Ég vil ekki alveg taka undir þetta.