143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það sýnir nú hvað ég er að þroskast að ég stilli mig um að neyta færisins og halda því fram að Björt framtíð vilji ekki koma ríkisstjórninni frá. Ég veit að það er ekki þannig.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það mundi ekki leysa öll vandamál samfélagsins ef ríkisstjórnin færi frá. Hins vegar skal ég trúa henni fyrir því að það mundi leysa ákaflega mörg vandamál, að minnsta kosti það sem við erum að glíma við hérna. En menn verða alltaf að vera ábyrgir orða sinna. Það hef ég reynt sem stjórnmálamaður en ekki alltaf tekist að efna það sem ég hef sagt, en menn verða að sýna lit og vilja til þess.

Í þessu tilviki er það þannig að ríkisstjórnin eða að minnsta kosti forustumaður annars stjórnarflokksins lofaði fyrir kosningar — hann hefði getað látið staðar numið í kosningum og sagt: Ja, það náðist ekki samkomulag um það, en hann endurtók það eftir kosningar. Og ef hann sjálfur telur ekki mögulegt fyrir sig að lúta vilja þjóðarinnar í atkvæðagreiðslunni sem hann lofaði, er þá einhver önnur leið eftir nema viðkomandi flokkur hopi á hæli og fari? Er það ekki lógík atburðarásar?