143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:41]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður sýtir það að hafa ekki þrjá tíma til að fjalla um þetta mál. Hann kom engu að síður inn á margt í ræðu sinni um þá tillögu sem hér er til umfjöllunar.

Mig langar samt að staldra aðeins við eitt eða tvennt sem kom þó ekki alveg skýrt fram í máli hans og skýrist kannski af því að ræðan var bara tíu mínútur en ekki þrír tímar. Það er í fyrsta lagi grundvallarafstaða hans til aðildar að Evrópusambandinu. Hann lýsti því hér yfir að þessi tillaga væri að hans viti vond. Ég skildi það þannig að hann teldi ástæðu til að ljúka aðildarviðræðunum en vil vita hvort hann geti sagt okkur aðeins meira um afstöðu hans til aðildar Íslands að Evrópusambandinu, hvort hann er almennt fylgjandi því eða andsnúinn eða hvort hann vill bara bíða eftir því að sjá hver niðurstaðan úr samningaviðræðunum verður.

Hin spurningin sem ég mundi vilja beina til hv. þingmanns er þessi: Telur hv. þingmaður ekki mikilvægt að freista þess að ná einhvers konar víðtækri samstöðu eða sátt um afgreiðslu málsins í þinginu? Hvaða afstöðu hefur hann til að mynda til þeirrar þingsályktunartillögu sem þingflokkur Vinstri grænna hefur lagt fram og lýtur að því að gera formlegt hlé en efna engu að síður til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins?