143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mitt mat var það að á árinu 2012, a.m.k. langt fram eftir því ári, voru engin þau tímamót uppi sem kölluðu á að endurskoða viðræðurnar, hvað þá slíta þeim. Það var m.a. þannig að allt það ár fram á haust bundu menn vonir við að sjávarútvegskaflinn opnaðist. Eitt af mínum fyrstu verkum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í janúar 2012 var einmitt að fara til Brussel og leggja ekki síst áherslu á það að Evrópusambandið drifi sig í að leggja fram rýniskýrslu sína þannig að við gætum farið í að ræða sjávarútvegsmálin eða sjá a.m.k. á spil Evrópusambandsins í því. Það var ekkert nýtt af okkar hálfu. Við höfðum lagt á það mikla áherslu. Í raun og veru er það sem er grætilegt eftir á að hyggja að okkur skyldi ekki takast að koma sjávarútvegskaflanum og eftir atvikum landbúnaðar- og dýraheilbrigðisköflunum lengra áfram þannig að við sæjum eitthvað meira hvar við stæðum í þeim efnum. Ég var og er mjög spenntur fyrir því að sjá það. Það er í sjálfu sér það sem eftir er til að við fáum einhverja mynd af því í hve ríkum mæli eða hvort Evrópusambandið býður upp á einhverjar þær sérlausnir fyrir okkur í þessum efnum sem gætu verið athugunarvirði.

Það voru að mínu mati engin tilefni til að gera brot í þetta ferli á árinu 2012 fyrr en leið að lokum þess og eftir ríkjaráðstefnuna í desembermánuði. Þá var orðið ljóst að við yrðum engu nær þegar kæmi að kosningunum enda biðum við átekta fram yfir ríkjaráðstefnuna í desember. Í beinu framhaldi af því tóku stjórnarflokkarnir að ræða saman um að úr því sem komið væri yrði að horfast í augu við að mikið meira mundi ekki gerast í þessu ferli fyrir kosningar. Þá væri lýðræðislegast að hægja á því (Forseti hringir.) og láta næsta kjörtímabil um að takast á við framhaldið.