143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég held að það sé mikill misskilningur. Það sem skiptir máli í þessu er að koma heiðarlega og hreinskiptið fram, upplýsa Evrópusambandið um aðstæður okkar og hvernig við komumst að einhverri niðurstöðu og þá hafa þeir skilning á því. Reyndar held ég að við þurfum ekkert sérstaklega að vera að stafa ofan í þá hluti sem þeir hvort sem er fylgjast mjög grannt með sjálfir. Það var mín tilfinning í þessum samskiptum við þá á síðasta kjörtímabili að þeir væru býsna vel heima í því hvernig landið lá hér bæði pólitískt og á annan hátt.

Talandi um það, halda menn að samningamenn Evrópusambandsubs séu óvanir að ræða við lönd þar sem svona mál eru umdeild? Menn hafa haldið því fram, gott ef ekki hæstv. ráðherra, að ekki komi til greina að ræða við Evrópusambandið nema það sé 99% stuðningur við að ganga inn og allir séu á því máli. Það verði að vera alger samstaða um það, hef ég heyrt menn segja. Þvílíkt endemis rugl. Evrópusambandið er alvant því að ræða við aðila þar sem þetta er tvísýnt og umdeilt. Hvernig var það í Svíþjóð þegar þeir voru að ræða við Evrópusambandið? Alltaf var meiri hluti á móti því að Svíar gengju í Evrópusambandið nema bara í kosningunum og svo var meira að segja meiri hlutinn andvígur því fljótlega eftir kosningarnar aftur. Þannig var það nú og þetta þekkja þeir vel.

Mín reynsla er sú að ef komið er hreint fram þá hafa þeir alveg skilning á því. Þeim fannst sumt skrýtið í þessum aðstæðum þegar við vorum í þessum viðræðum, þar á meðal að stjórnarflokkarnir skyldu ekki vera sammála. Maður útskýrði það fyrir þeim og þeir bara sögðu: Þá er það þannig. Þetta með að við vildum ekki aðlögun og breytingar á lögum og reglum eða stofnunum fyrr en þjóðin væri búin að segja sitt álit, það fannst þeim líka dálítið skrýtið. En þeir sögðu: Gott og vel. Ef það er þannig þá bara höfum við það þannig. Mín reynsla er ekki sú að ekki sé hægt að upplýsa Evrópusambandið, að hafa þurfi áhyggjur af því að þeir skilji ekki svona hluti.