143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú eru ekki nema örfáir dagar í að kennaraverkfall skelli á í framhaldsskólum landsins ef fram fer sem horfir. Ég hef talsvert miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem uppi er í kjarabaráttu framhaldsskólakennara og samkvæmt upplýsingum úr fjölmiðlum er ekkert samkomulag í sjónmáli. Ég hef talsvert miklar áhyggjur af því að framhaldsskólakennari sem borgar af bifreið og námsláni fær ekki einu sinni greiðslumat til að kaupa húsnæði nema með afborgunum upp á um það bil 20 þús. kr. á mánuði. Ekki er heldur möguleiki að fá leiguhúsnæði á þessum kjörum.

Mér finnst afskaplega sorglegt að sjá að einstaklingar sem hafa menntað sig til margra ára, sem hafa fjárfest í menntun sinni, geti ekki með nokkru móti fengið öruggt þak yfir höfuðið. Mér finnst það alls ekki í lagi, bara alls ekki. Það er til skammar að ekki sé hægt að lifa af launum sínum, sama hvaða stétt við tilheyrum.

Mér finnst virkilega erfitt að horfa upp á að svigrúm til launahækkana sé ekki mikið og ég vona svo sannarlega að ákveðnar kerfisbreytingar innan framhaldsskólanna geti skapað svigrúm til launahækkana fyrir kennara. Því fyrr sem það verður því betra, en ég vil ítreka að nauðsynlegt er að mínu mati að samráð sé haft við þá sem tilheyra stéttinni.

Ég hef einnig áhyggjur af nemendum í framhaldsskólum, sem eru um 30 þús. talsins í 28 framhaldsskólum. Ég hef áhyggjur af þeim. Ég hef áhyggjur af því að brottfall nemenda úr framhaldsskólum hefur verið mikið áhyggjuefni hér á landi og hætt er við því að langvarandi verkfall verði til þess að enn fleiri nemendur hætti í skóla og ljúki ekki framhaldsskólanámi.

Ekki misskilja mig, ég skil vel baráttu kennara fyrir bættum kjörum, en ég varð bara að koma því á framfæri að ég hef áhyggjur af stöðunni. Barátta kennara fyrir bættum launakjörum er ekki fyrst að koma upp núna, þetta hefur verið löng barátta til fjölda ára. Hugum að einu: Kennarar hugsa um þau sem eru okkur dýrmætust, það eru börnin okkar.