143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu hér. Ég veitti því auðvitað athygli þegar til þingsins kom þingsályktunartillaga sem varðaði þetta mál með nokkrum hætti og hef verið að vona að hún kæmist á dagskrá fyrr eða síðar þannig að við fengjum tækifæri til að ræða þetta og taka til meðferðar í utanríkismálanefnd á þeim forsendum.

Það er hins vegar rétt sem hv. þingmaður bendir á að það er hægt að gera þetta með öðrum hætti líka. Framkvæmd þróunaraðstoðar okkar er í höndum utanríkisráðuneytisins en utanríkismálanefnd hefur jafnframt samráðshlutverki að gegna hvað það varðar. Án þess að ég geti lýst því á þessari stundu hver ég telji að eigi að vera niðurstaðan í málinu er ég þeirrar skoðunar að það sé vel einnar messu virði að utanríkismálanefnd taki þetta til umræðu, fái til sín fulltrúa utanríkisráðuneytis og þróunarsamvinnuyfirvalda til að ræða þessi mál. Farið verði yfir það hvernig við getum hugsanlega nýtt þau tengsl sem fyrir hendi eru vegna þróunarsamvinnunnar til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri með sterkum hætti gagnvart stjórnvöldum í Úganda vegna þessarar löggjafar sem gengur auðvitað þvert gegn þeim gildum sem við viljum standa fyrir.