143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með síðasta hv. ræðumanni. Því miður hafa hér legið inni beiðnir um sérstakar umræður við forsætisráðherra svo vikum skiptir og jafnvel ekki orðið af þeim vegna þess að þeim var ekki sinnt.

Ég kem hingað upp til að vekja máls á því að svo virðist sem Framsóknarflokkurinn ætli ekki að efna stærsta kosningaloforð sitt sem var kosningaloforðið um að afnema verðtrygginguna á lánum okkar á Íslandi. Nú er að verða liðið eitt ár af þessu kjörtímabili og ekkert bólar á efndum á loforðinu um afnám verðtryggingar. Það eina sem hefur gerst hingað til er að nefnd sem þeir skipuðu sjálfir af sínu eigin fólki hefur komist að þeirri niðurstöðu að öll tormerki séu á því að afnema verðtrygginguna, það sé mjög flókið og eiginlega ómögulegt.

Hingað inn hafa engin frumvörp komið í þá veru, ekki einu sinni að draga úr verðtryggingu, hvað þá að afnema hana afturvirkt enda vissum við svo sem alltaf að þeir ætluðu aldrei í þann leiðangur. En þeir hafa ekki einu sinni haft döngun í sér til að afnema verðtrygginguna fram í tímann. Og hvað hafa þeir núna gert? Nú hafa þeir flutt inn í þingið tillögu um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og afturkalla þann eina raunhæfa möguleika sem er til þess að minnka fjármagnskostnað heimilanna í landinu, lækka vaxtakostnað heimilanna í landinu. Það er fyrirsjáanlegt að óbreyttu, vegna þess að þeir eru hættir að tala um kanadadollar og norska krónu, að Íslendingar muni áfram búa við íslensku krónuna með þeim okurvöxtum sem henni fylgja, með verðtryggingu og verðbótum. Nú hefur það bæst við að hér eru gjaldeyrishöft sem kosta 80 milljarða, hvert heimili í landinu hundruð þúsunda, sem enn munu leggjast á í vaxtakostnaðinn við það að halda úti íslenskri krónu sem (Forseti hringir.) Framsóknarflokkurinn ætlar sér augsýnilega að hafa áfram verðtryggða alveg í botn. (Gripið fram í.)