143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að gera að umtalsefni þau mál sem voru aðalkosningamálin síðasta vor og eru í deiglunni með reglulegu millibili.

Nú síðast í morgun birtist grein í Fréttablaðinu sem bar yfirskriftina „Leiðrétting húsnæðislána gríðarlega flókið verkefni“. Við töldum nú í kosningabaráttunni að þetta væri ekki alveg eins einfalt og Framsóknarflokkurinn lagði upp með og sýnist okkur það hafa komið á daginn.

Það sem mig langar að gera hér að umtalsefni er að í morgun hlaut þetta verkefni titilinn „Stærsta upplýsingatækniverkefni Íslandssögunnar“. Þetta eru nú að verða eins konar mannkynssögufyrirbæri, (Gripið fram í.) þessi skuldamál sem hér hafa verið til umfjöllunar, en það sem mig langar að velta upp er að þar kemur fram að afla eigi fjárheimilda til að starfrækja það miðlæga hlutverk sem fela á ríkisskattstjóra til að vinna verkið. Ég sé að hv. formaður fjárlaganefndar hefur farið úr sal en ég veit að hún mun fá fregnir af þessu, en ég óska eftir því og beini því til hennar að fjárlaganefnd fái upplýsingar um kostnaðinn sem fylgir þessu verkefni því að upplýsingatækni, þróun og hönnun kostar ekki litla peninga og þetta er væntanlega eingöngu kerfi sem smíðað er utan um þær lækkanir eða úrlausnir sem Framsóknarflokkurinn og ríkisstjórnin ætla að leggja til.

Ég hef líka velt því fyrir mér: Þurfa fjármálastofnanirnar að breyta miklu í upplýsingakerfi sínu? Og ef svo er, hvar heldur fólk að kostnaðurinn lendi? Kostnaðurinn er nefnilega að verða töluverður í kringum þessi útfærslumál ríkisstjórnarinnar þó að það bóli ekkert á þeim, en ég hef líka áhyggjur af því að kostnaðurinn komi fram hjá fjármálastofnunum í formi aukinna gjalda.