143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að vekja athygli Alþingis á því og fagna því um leið að í dag komst Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, að niðurstöðu hvað varðaði úttekt sína á fjárfestingarsamningi vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar kísiliðjuvers á Bakka. Samningurinn er samþykktur athugasemdalaust. Þær ívilnanir sem í fjárfestingarsamningnum felast eru samþykktar athugasemdalaust. Fyrir tveimur vikum síðan samþykkti ESA sömuleiðis þátttöku ríkisins og Norðurþings í uppbyggingu nauðsynlegra hafnarmannvirkja.

Það má segja að fallist sé á rök íslenskra stjórnvalda eins og þau leggja sig fyrir því að við þær aðstæður sem þarna eru sé bæði heimilt og réttlætanlegt að ganga lengra en gert er í almennum fjárfestingarsamningum. Þegar þessi mál voru til umfjöllunar hér á Alþingi höfðu sumir þáverandi þingmenn áhyggjur af því að þessar röksemdir mundu ekki halda en þær hafa nú sýnt sig gera það. Þannig kemur fram á heimasíðu ESA, með leyfi forseta, og er haft eftir forseta stofnunarinnar:

„Ríkisaðstoðin stuðlar að atvinnusköpun og fjölbreytni í atvinnulífi á svæði þar sem efnahagslíf hefur verið hnignandi og vegur að hluta upp á móti aukakostnaði sem fylgir þessari staðsetningu. Vonandi mun fjárfestingin snúa þróuninni við og fleiri verkefni á Bakka fylgja í kjölfarið.“

Þarna er í raun og veru tekið undir allar veigamestu röksemdirnar sem fyrir því voru að gera fjárfestingarsamninginn þannig úr garði eins og raun ber vitni. Þetta er að sjálfsögðu mikið ánægjuefni og fagnaðarefni í héraði og ég tel að það eigi að vera það fyrir okkur öll. Þarna geta farið af stað umtalsverðar fjárfestingar og uppbygging á næstu mánuðum en vissulega eru framkvæmdirnar ekki endanlega ákveðnar með þessu heldur er það nú í höndum fjárfestisins að klára það sem eftir er.