143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Þegar hv. þm. Helgi Hjörvar tók til máls áðan og taldi Framsóknarflokkinn á góðri leið með að svíkja helsta kosningaloforð sitt áðan þá flaug mér í hug íslenskur málsháttur sem hljóðar svo, með leyfi forseta: Sárt bítur soltin lús. En ég skil óþreyju hv. þingmanns eftir því að hér komi fram tillögur um afnám verðtryggingar vegna þess að hv. þingmaður var síðustu fjögur ár stuðningsmaður ríkisstjórnar sem ekki kom helstu stefnumálum sínum fram. (Gripið fram í: Nú?) Þess vegna er ég ekkert hissa á því að hann skuli vera óþreyjufullur eftir því að framsóknarmenn efni öll sín kosningaloforð á fyrstu ellefu, tólf mánuðum sínum í ríkisstjórn og ég þakka fyrir það traust sem hv. þingmaður sýnir okkur og þá miklu trú sem hann hefur á okkur.

En málið er í góðum farvegi. Það kemur fram og það er enginn efi á því að tekið verður á verðtryggingarmálum hér. (Gripið fram í.) Það er hins vegar athyglisvert að hv. þingmaður skuli kjósa að hnýta þetta mál saman við Evrópusambandið. Það er kannski kominn tími til þess að þingmenn Samfylkingarinnar tali hér um eitthvert mál og að farið verði í „Frúna í Hamborg“ við þá, en í staðinn fyrir að ekki megi segja svart og hvítt og ekki já eða nei verði bannað að segja evra og Evrópusambandið vegna þess að það virðist ekki vera til lausn á nokkrum sköpuðum hlut á þeim bæ nema evra eða Evrópusambandið komi þar inn, nema ef vera skyldi hundahald í þéttbýli, ég veit það ekki.

Ég get fullvissað hv. þingmann um að það er ekkert lát á því að hér komi fram tillögur um breytingar á verðtryggingu á næstu vikum. (Gripið fram í.)