143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[15:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún fjallaði mjög mikið um kosningasvik, það voru hennar orð, og lýðræðið og það að hér er ekki verið að krefjast þess að Ísland gangi eða gangi ekki í ESB heldur er verið að krefja hæstv. ríkisstjórn um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því sambandi eru oft notuð hin svokölluðu ómöguleikarök. Hv. þingmaður var hér á seinasta kjörtímabili og mér þykja þau rök svolítið sérstök með hliðsjón af því að á seinasta kjörtímabili var annar stjórnarflokkanna opinberlega á móti því að ganga í ESB. Vissulega hefur verið gagnrýnt að þetta hafi ekki gengið miklu hraðar fyrir sig en það gerði, en það gekk þó. Sérstaklega eftir að hafa lesið þessa skýrslu, hugsa ég í milljónasta skiptið, dettur mér í hug að hugsanlega sé hægt að greiða úr ágreiningi Íslands við Evrópusambandið varðandi landbúnaðarmál og jafnvel sjávarútveg, eitthvað sem mér þótti þar áður næstum því óhugsandi.

Mér þykir svolítið sérstök þessi ómöguleikarök með hliðsjón af því að nú er komin reynsla á að það sé að minnsta kosti einn flokkur í ríkisstjórn sem sé beinlínis og opinberlega á móti því að ganga í ESB.

Því langaði mig að inna hv. þingmann eftir reynslusögum í þeim efnum, þá kannski bara hv. stjórnarliðum til fróðleiks um það hvernig hægt sé að standa faglega að svona ferli, í fyrsta lagi hvort það sé þá ekki alveg örugglega hægt, í öðru lagi hvort það sé þá kannski eitthvað í því ferli sem hæstv. ríkisstjórn mætti taka sér til fyrirmyndar þegar hún tekst á við verkefnið sem henni er kannski ekkert sérlega vel við.