143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að ég hef verið Evrópusinni í að minnsta kosti 20 ár og það hafði ekkert með efnahagsmál að gera þegar sú hugsjón kviknaði í brjósti mér. Eftir því sem árin hafa liðið hef ég orðið sannfærðari um það, sem og mjög margir aðrir, ég er ekki ein um það, að efnahagslegum hagsmunum Íslands sé betur borgið innan Evrópusambandsins. Það lýtur ekki eingöngu að vergri landsframleiðslu, við þurfum líka að líta á það hvernig hún er samsett. Er það úr fjölbreyttri atvinnustarfsemi sem aðild að Evrópusambandinu mundi ýta undir? En það lýtur líka að stöðugleika myntarinnar. Við erum mjög háð útflutningi, við flytjum mikið út til evruríkja og Evrópusambandsins. Það er heldur engin tilviljun að forstjórar á Íslandi kalla eftir því að við höldum áfram með aðildarviðræðurnar því að það er erfitt að reka fyrirtæki og heimili við efnahagsleg skilyrði sem íslenska krónan skaffar okkur.