143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur að það er einmitt þannig að í öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi hefur verið ágreiningur um þetta mál, það hefur komið ágætlega fram í umræðunni. Einhverra hluta vegna hefur tekist að smala stjórnarþingmönnum öllum saman þannig að í þessum þingsal virðast allir ætla að ganga í takt í því að slíta þessum viðræðum. Það hefur þá tekist undarlega vel að velja inn fulltrúa á þingið, vitandi af þessari Kópavogssamþykkt og ályktun Fjórðungssambands Vestfjarða um að halda ætti áfram með aðildarviðræður þar sem sveitarfélögin voru á fundunum. Það er meira að segja landsvæði þar sem vægi atkvæða er allt annað en í Kópavogi.

Það vekur undrun manns, einmitt út frá þeim staðreyndum að við erum með allt þetta fólk og þessar ólíku skoðanir, að menn skuli leyfa sér, hafandi ekkert annað plan, að loka ákveðnum leiðum. Það er það sem kom kannski ekki nógu vel fram í ræðunni, vegna þess að tíminn er auðvitað stuttur, að mér finnst ótækt að loka leiðum.

Ég tel tillöguna frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði engan veginn ásættanlega fyrir Samfylkinguna að því leyti að ég tel mikilvægt að leiða málið til lykta með þjóðaratkvæðagreiðslu. Við göngumst undir það, og það er sáttatillagan. Við sögðum á sínum tíma: Það þarf ekki þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að við ætlum að hafa hana þegar samningur liggur fyrir. En nú er krafan um að fá að taka ákvörðun um framhaldið og ég styð það, það er málamiðlun okkar. Ég tel mikilvægt að það sé gert fyrr en seinna vegna þess að mér finnst engin ástæða til að hlífa ríkisstjórn við því, viljandi þjóðaratkvæðagreiðslu um sem flest mál, að vinna eftir slíkri niðurstöðu. Það er enginn ómöguleiki í því að þurfa að vinna eftir þeim niðurstöðum sem þjóðin kallar eftir, og ef það er ómöguleiki að mati ríkisstjórnarinnar þá fer hún frá.