143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki látið mér detta það í hug að ríkisstjórnin færi að bera þingsályktunartillöguna óbreytta undir þjóðaratkvæði, heldur hreinlega bara um það hvort halda eigi áfram viðræðum eður ei. Það er krafan sem hefur hljómað hér og undirskriftirnar ganga út á, þ.e. að fólk vill fá að klára umræðurnar.

Ef þjóðin talar með skýrum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu þá eigum við að fylgja þeirri niðurstöðu, það segir sig sjálft, sama hvernig það er lagt fyrir þjóðina. Við höfum sagt: Við viljum fá þann úrskurð þjóðarinnar. Samfylkingin mun að sjálfsögðu lúta því eins og aðrir. En ég tel eðlilegast, eins og ég sagði, að þessi tillaga sem hér er rædd verði dregin til baka. Ég hef að vísu ítrekað talað fyrir því hér, farið í andsvör og tekið til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta, vegna þess að ég vil fá skýringar á því að hér eru tvær aðrar tillögur, meðal annars sú tillaga sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir vekur athygli á frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og ég vil að þessar tillögur verði ræddar.

Ég vil að við fáum tíma til að upplýsa ólík sjónarmið í þessu máli. Auðvitað þyrftum við þá líka að fá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins inn í umræðuna en einhverra hluta vegna telur sá flokkur sig ekkert þurfa að koma nálægt þessu, vill kannski ekkert segja vegna þess að hann er í hrópandi andstöðu við marga flokksmenn og þorir ekki að tjá skoðanir sínar hér og fara í málefnalega umræðu um tillögu sem átti að hljóta mjög ítarlega og málefnalega umræðu hjá þjóðinni. En það er önnur saga.

Margir sögðu það á sínum tíma, og vitnað er í það í greinargerð með tillögunni sem við ræðum hér, að hyggilegra hefði verið að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma. Menn geta deilt um það. Ákveðið var að bíða og greiða atkvæði þegar endanlegur samningur lægi fyrir. Ekki var farið í þjóðaratkvæðagreiðslu þá. Eftir að það lá fyrir koma öll þessi loforð, m.a. ráðherra sem ég var að nefna hér áðan, þannig að það getur ekki verið nein afsökun fyrir því að vilja ekki fara í þjóðaratkvæðagreiðslu núna. Allir þeir ráðherrar sem við höfum vitnað í í umræðunni gáfu loforð sín fyrir kosningarnar þegar fyrir lá að þjóðaratkvæðagreiðsla hafði ekki farið fram áður, þ.e. þegar sótt var um. Það er því rökleysa — af því að við erum að tala um að beita rökum — að það séu rök fyrir því að fara ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu núna.