143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Sú þingsályktunartillaga frá hæstv. utanríkisráðherra sem hér er til umræðu, um að draga skuli til baka aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu, hefur að sjálfsögðu orðið tilefni til mikillar og langrar umræðu og því miður mikilla deilna milli þingmanna og flokka. Það er kannski bara eins og það er í þjóðfélaginu, það eru skiptar skoðanir um hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið eða ekki. En ég vil byrja á því að minna á að Alþingi samþykkti með fimm atkvæða meiri hluta árið 2009 að sækja um að fara í aðildarviðræður, í mínum huga að kanna kosti og galla og fá samning til að leggja fyrir þjóðina í skuldbindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Tveir þingmenn sátu hjá, fyrrverandi hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir frá Vinstri grænum og þáverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Tillagan naut stuðnings úr öllum flokkum og eins og ég hef áður sagt samþykkti þáverandi varaformaður Framsóknarflokksins, Birkir Jón Jónsson, þá tillögu. Hann hefur vafalaust gert það á merkilegum forsendum sem finna má í samþykktum flokksþings framsóknarmanna árið 2009, sem hann hefur greitt atkvæði með. Samþykktir flokksþings framsóknarmanna frá 2009 eru mjög merkilegt plagg og ætti í raun að fara miklu meira yfir þær vegna þess að mér virðist eins og það séu miklu fleiri framsóknarmenn sem vilja fara þá leið að slíta viðræðum en í hinum stjórnarflokknum. Í raun og veru er það óskiljanlegt miðað við það sem samþykkt var á flokksþingi Framsóknarflokksins, eins og það heitir, og ýmislegt sem sagt hefur verið eftir það.

Ég hef áður sagt að ég gæti tekið undir næstum allt sem þar var samþykkt. Þar eru ræddir fyrirvarar og ýmislegt varðandi sjó og land sem ég get tekið undir að mörgu leyti. Ég vil líka minna á nefndarálit 2. minni hluta utanríkismálanefndar við þessa tillögu, en í 2. minni hluta var enginn annar en núverandi hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Í því nefndaráliti kemur fram nokkuð sem rétt er að rifja upp, ýmislegt um fyrirvara og annað slíkt sem ég gæti líka skrifað upp á. Þetta er það sem unnið hefur verið. Ég segi því alveg hiklaust að ég skil ekki þau sinnaskipti sem orðið hafa hjá framsóknarmönnum hvað þetta varðar miðað við samþykkt flokksþingsins og annað sem sagt hefur verið og gert.

Frá síðustu kosningum hefur það verið gagnrýnt og sagt: Jú, það er kominn nýr stjórnarmeirihluti. Stundum hefur verið sagt: Allir ráðherrarnir í hæstv. ríkisstjórn eru á móti þessu og þess vegna á ekki að halda áfram aðildarviðræðum. Það er ekki nægjanlegt að mínu mati.

Það má líka minna enn einu sinni á loforð eiginlega allra oddvita Sjálfstæðisflokksins í nær öllum kjördæmum. Ég veit um fimm kjördæmi sem öll eru mjög samhljóða oddvita Sjálfstæðisflokksins sem lofuðu því fyrir síðustu kosningar að þjóðin fengi að greiða atkvæði um hvort slíta ætti viðræðum eða ekki. Sá sem hér stendur tók þátt í þessari samþykkt 2009 og hefði alveg getað skrifað upp á það og sagt: Já, við skulum bara gera það núna árið 2014, við skulum samþykkja það að þjóðin fái að greiða um það atkvæði hvort við eigum að halda áfram eða ekki. Þessi tillaga er sú mesta sátt sem ég hef nokkurn tíma orðið vitni að hér á Alþingi. Það er nú bara þannig og það er mjög merkilegt.

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það hér í ræðustól og skal gera það einu sinni enn í umræðu um þetta mál: Ég vil fá að sjá samning til að vega það og meta í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort ég segi já eða nei og þarna eru þættir inni, sérstaklega sem snúa að sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum, sem ég set ekki fyrirvara um heldur vil sjá. Í skýrslu utanríkisráðherra, þar sem fjallað er um nýja sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór vel yfir í ágætri ræðu sinni, kemur margt mjög fróðlegt fram, m.a. er sagt hvað Evrópusambandið er að gera í fiskveiðistjórnarmálum og sjávarútvegsmálum sem við getum alveg skrifað undir. Getum við ekki alveg skrifað undir aukna áherslu á svæðisbundna stjórnun og aukna ákvörðunartöku í héraði og margt fleira?

Gagnrýnt hefur verið, og mér virðist það stundum vera eitt af aðaláhersluatriðum þeirra sem vilja slíta viðræðum, að ekki hafi tekist að opna samningskaflann og fá að sjá hvað skrifað er um sjávarútvegsmál. Þá er rétt að hafa í huga að það sem tafði það var Evrópusambandið sjálft sem fór í að endurskoða sína sameiginlegu fiskveiðistjórnarstefnu og getið er um í þessari skýrslu mjög ítarlega og faglega. Þar segir m.a. að í lok maí 2013 hafi náðst pólitískt samkomulag um að hafa það sem grundvöll í hinni nýju sjávarútvegsstefnu sem byggð er á tillögum þeim sem taldar eru upp í þessari skýrslu. Þann 10. desember 2013 var nýja stefnan samþykkt á Evrópuþinginu að undanskildu fyrirkomulagi varðandi sameiginlega sjávarútvegssjóðinn. Lokasamkomulag náðist þann 28. janúar á þessu ári, árið 2014.

Þetta segi ég sem rök fyrir því að ekki var hægt að opna þann mikilvæga kafla sem margir hér hafa tjáð sig um að hafi átt að opna fyrst. Þetta er ástæðan fyrir því og hana verður að virða. Varðandi ýmsar efnahagsþrengingar, sérstaklega í sunnanverðri Evrópu, þá held ég að það hafi að miklu leyti verið vegna þess að stjórnarstefnan í ríkisfjármálum í þeim löndum var ekki neitt sérstök, að það sé frekar því um að kenna en ýmsum öðrum þáttum sem sagðir eru hafa spilað inn í þá erfiðleika sem voru í sunnanverðri Evrópu og riðið hafa yfir Evrópusambandið. Sambandið er á góðri leið með að vinna úr þeim málum núna og ber styrkur evrunnar núna vott um það.

Virðulegi forseti. Við fáum hér við fyrri umr. þessarar þingsályktunartillögu ekki nema tíu mínútur og svo fimm mínútur til að ræða þetta mikilvæga mál. Ég segi alveg hiklaust: Þetta er eitt mikilvægasta mál sem stjórnmálaflokkar á Íslandi standa frammi fyrir núna og þurfa að taka ákvarðanir um. Þess vegna skil ég ekki af hverju stjórnmálaflokkar á Íslandi geta ekki náð samkomulagi um hvernig við ætlum að halda áfram með þetta mál sem leiða á til samnings sem þjóðin fær að greiða atkvæði um. Ég hef sagt: Þeir sem vilja styðja samninginn og þeir sem eru á móti honum fá fjárframlög úr ríkissjóði til að kynna sín sjónarmið. Best væri að gera það á sameiginlegum fundum úti um allt land og síðan mundi þjóðin greiða atkvæði um það. Segi þjóðin já, sem er frekar ólíklegt miðað við skoðanakannanir, þá er það endanleg niðurstaða og þá kemur mesta áskorunin sem íslenskir stjórnmálaflokkar geta fengið, að endurskoða efnahagsmálin, sama hvort það eru peningamál, ríkisfjármál, gjaldmiðilinn eða annað.

Þetta hefur verið afstaða mín og ég vildi gera hana að umtalsefni hér. Af hverju er ekki hægt að ná samstöðu á milli flokka þar sem allir þurfa að gefa eitthvað eftir af sínum ýtrustu tillögum og hugmyndum? Enginn fær allt sitt fram heldur er þetta málamiðlun, málamiðlun milli flokka sem allir geta unað við til að vinna að þessu framfaramáli. Mér finnst núna á síðustu dögum að fulltrúar bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks séu að gefa upp boltann um að það sé möguleiki. Þegar þessari umræðu lýkur fer málið til efnislegrar umfjöllunar í utanríkismálanefnd, til faglegrar umfjöllunar þar sem tekin verður til umfjöllunar skýrsla aðila vinnumarkaðarins, Samtaka atvinnulífsins og ASÍ sem er að koma í þessum mánuði, ásamt þeirri skýrslu sem hæstv. utanríkisráðherra lagði fyrir þingið. Mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra ef hann heyrir mál mitt, vegna þess að ég veit að hann er hér í hliðarsal, hvort hann geti svarað í stuttu andsvari á eftir varðandi það sem mér fannst merkilegast í umræðunni í gær, sem var stutt andsvar hans við ræðu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur rétt fyrir kl. 3 í gær. Þar gaf hann í skyn á málefnalegan hátt, að mér fannst, að nefndin ætti að vinna þetta mál og það væri ekkert útilokað að við gætum náð sátt um það.

Það verða lokaorð mín í þessari tíu mínútna ræðu að hvetja til þess að forustumenn stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi setjist niður og haldi áfram að leita lausna til farsællar (Forseti hringir.) niðurstöðu með þetta mál sem yrði þá þjóðinni allri til heilla, (Forseti hringir.) sem endar með því að þjóðin mun taka ákvörðun um í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vill ganga í Evrópusambandið (Forseti hringir.) eða ekki.