143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:52]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að skyggnast aðeins betur inn í hugarheim framsóknarmanna hvað þetta varðar og vitna til þess að í mars 2007 kemur út skýrsla Evrópunefndar Framsóknarflokksins, ágætisskýrsla sem ég vil trúa að allir nýir þingmenn hafi lesið. Ýmislegt kemur þar fram sem ég sem aðildarumsóknarsinni sem hef stutt þetta get tekið undir, eins og ég segi.

Hvað hef ég fleira fyrir mér, virðulegi forseti, þegar ég segi þetta og tala um sinnaskipti núverandi forustu flokksins á nýbyrjuðu þingi? Jú, nefndarálit frá 2. minni hluta utanríkismálanefndar, hæstv. núverandi forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þar sem hann fer yfir þessi atriði, m.a. þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Framsóknarflokkurinn talaði fyrir þeirri leið þar til víðtæk samstaða náðist á flokksþingi flokksins í janúar 2009 um að komast mætti hjá þjóðaratkvæðagreiðslu en ná sams konar samstöðu með því að binda umsókn um Evrópusambandsaðild ákveðnum skilyrðum.

[…] 2. minni hluti telur að sú leið sem farin var til að ná víðtækri samstöðu innan Framsóknarflokksins sé vel til þess fallin að ná breiðri sátt um málið á Alþingi og í þjóðfélaginu öllu.“

Svona má lengi telja. Ég vek athygli, virðulegur forseti, á því að þetta eru ekki mín orð, þetta er lesið úr nefndaráliti.

Svo er breytingartillaga hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur 2009 og síðast en ekki síst bréf formanns Framsóknarflokksins til kjósenda í Reykjavík. Ég vek þó athygli á því að það var bara sent kjósendum í Reykjavík og að mér skilst mátti það alls ekki fara í önnur kjördæmi eða út á land. Þar lofar hann stefnu Framsóknarflokksins og talar mjög vel um hvernig eigi að gera.

Síðast en ekki síst hefur hæstv. forsætisráðherra eftir kosningar 2013 sagst líta svo á að það sé komið hlé á viðræður og að ekki eigi að slíta þeim með formlegum hætti, en þráðurinn (Forseti hringir.) verði ekki tekinn upp að nýju nema með umboði frá þjóðinni um (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst frá þessum upphafsárum sem hv. þingmaður fór dálítið langt aftur í, (Forseti hringir.) til Steingríms Hermannssonar, að miðað við núið (Forseti hringir.) sé Framsóknarflokkurinn ekkert annað en Evrópuaðildarumsóknarsinnar.