143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:57]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan og fór yfir má bæta við að Framsóknarflokkurinn hefur lengri sögu um að vilja ganga til viðræðna við Evrópusambandið vegna þess að hann byrjaði á því á flokksþingi sínu 2007. Það var ítrekað enn skýrar á þinginu 2009 og svo í pappírum sem hafa verið sendir út, eins og fyrir síðustu kosningar umrætt bréf frá hæstv. forsætisráðherra, og síðast en ekki síst nefndarálitið sem ég vitnaði í frá árinu 2009 þegar samþykkt var að ganga til aðildarviðræðna með þeim atkvæðamun sem ég hef hér getið um.

Þess vegna skil ég ekki, virðulegi forseti, hvaða sinnaskipti hafa orðið núna þegar Framsóknarflokkurinn er kominn í ríkisstjórn, miðað við þá tillögu sem hæstv. utanríkisráðherra setur fram núna. Ég er ákaflega ósáttur við hana en bind vonir við orð hæstv. utanríkisráðherra hér í gær þar sem hann gaf upp boltann — ef við notum það knattspyrnumál — fyrir því að nefndin mundi reyna að tala sig að niðurstöðu sem allir gætu lifað við og sætt sig við. Enginn fær allt sitt fram, enginn verður beygður niður í jörðina og allir geta komið út með sameiginlega tillögu, ákveðnar málamiðlanir að sjálfsögðu í anda samvinnumanna, þar sem reynt verður að komast að niðurstöðu sem allir geta unað við.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður telur mig sérfróðan um málefni Framsóknarflokksins. Já, ég fylgist með öllum landsfundum, horfi á þá og geymi gögn sem send eru út, þar á meðal kosningagögn. Hér segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Telur 2. minni hluti að með fyrrgreindum hætti sé hægt að sameina þá sem eru með og á móti aðild að ESB í því að ganga til aðildarviðræðna enda fáist þá loks niðurstaða í hina áralöngu umræðu um hvernig samningur standi til boða og hverjar, ef einhverjar, hinna títtræddu undanþágna náist fram.“ (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þetta er allt saman í nefndaráliti núverandi hæstv. forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrir hönd Framsóknarflokksins árið 2009. (Gripið fram í: Hvað með …?)