143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þeirri umdeildu tillögu sem hér er til umræðu var skellt inn í þingið rétt fyrir kvöldmat á föstudegi. Það finnst mér lýsandi fyrir stöðuna. Málið er umdeilt og stjórnarmeirihlutinn hefur sjálfsagt gert sér grein fyrir því að tillögunni yrði mótmælt og freistað þess að leggja hana fram fyrir helgi í þeirri von að þingmenn hefðu blásið nóg yfir helgina og kæmu svo til þings tilbúnir til að renna málinu í gegn nokkuð snurðulaust, en þeim varð ekki að þeirri ósk sinni. Reiðin og vonbrigðin sem brutust út eru ekki bundin við Alþingi. Þúsundir manna hafa mótmælt tillögunni á Austurvelli dag eftir dag, um 50 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun um að setja tillöguna umdeildu til hliðar og leggja framhald málsins í dóm þjóðarinnar. Rúmlega 80% landsmanna vilja samkvæmt könnun fá að segja sitt um afgreiðslu málsins.

Stjórnarflokkarnir höfðu lofað því fyrir kosningar að þjóðin fengi að kjósa um hvort haldið yrði áfram með aðildarviðræðurnar. Með þessu loforði fengu þeir sennilega fleiri til þess að greiða þeim atkvæði sitt en ef þeir hefðu ekki gefið þetta kosningaloforð. Fyrir kosningar höfðu einnig báðir stjórnarflokkarnir gefið yfirlýsingu um að þeir teldu Íslandi betur borgið utan Evrópusambandsins. Samt lofuðu þeir þjóðaratkvæðagreiðslu og hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gerðu það með einstaklega skýrum hætti í kosningabaráttunni síðastliðið vor.

Nú bregður svo við að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, endurtekur í sífellu að hann geti ekki efnt kosningaloforðið því í því felist ómöguleiki. Það sé ómögulegt fyrir stjórnvöld að uppfylla kosningaloforðið vegna þess að það gæti gerst að þau verði ekki sammála niðurstöðunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þeim væri því ómögulegt að fara að þjóðarvilja.

Mér finnst ástæða til að staldra við þessi ummæli formanns Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Hvað þýða þau í raun og veru? Það er ekki hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna vegna þess að stjórnvöld gætu verið ósammála niðurstöðunni og treysti sér ekki til að framfylgja vilja þjóðarinnar. Er ekki eitthvað rangt við þetta, virðulegi forseti? Er hægt að sætta sig við það að aldrei geti farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla vegna þess að verið gæti að stjórnvöld treysti sér ekki til að framfylgja þjóðarviljanum? Eða er ómöguleikinn aðeins bundinn við núverandi hæstv. ríkisstjórn?

Mér finnst þessi orð hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vera ómöguleg og rök hans ganga ekki upp nema að við séum sammála því að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi aldrei við. Svo er ekki, hvorki hér í þingsal né meðal fólksins í landinu. Nei, takk, virðulegi forseti, ómögulega meira af þessu.

Krafan um að þjóðin fái að koma að þessu mikilvæga hagsmunamáli er hávær í samfélaginu. Rétt um 50 þúsund manns, rúmlega 20% kosningarbærra manna, hafa skrifað undir áskorun sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við undirrituð skorum á Alþingi að leggja til hliðar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar verði spurt: Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið sem hófust með ályktun Alþingis 16. júlí 2009, eða viltu slíta þeim?“

Svona hljóðar áskorunin, virðulegi forseti. Þetta er mjög skýrt og skorinort og 50 þúsund manns hafa skrifað undir.

Menn deila um hve hátt hlutfall kosningarbærra manna þurfi til að fallist verði á þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnlagaráð lagði til hlutfallið 10% á sínum tíma. Í umræðu um tillögu þess voru oft nefnd 15%. 20% er hvað sem öðru líður hærra en yfirleitt er miðað við hvað það varðar og sannarlega ástæða fyrir stjórnvöld að staldra við og endurskoða hug sinn.

Ég hef áhyggjur af því að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki og virðist ekki ætla að beita sér fyrir sátt um málið, hvorki við þing né þjóð. Getur verið að hæstv. forsætisráðherra átti sig ekki á þunganum í umræðunni? Getur verið að hann haldi að hann geti hunsað allt þetta fólk, mótmæli þeirra og áskoranir? Getur verið að sjálfstæðismenn ætli ekki að beita sér fyrir sátt í málinu? Um hvað var formaður Sjálfstæðisflokksins að tala þegar hann sagði á dögunum að kanna þyrfti með hvaða hætti aðkoma þjóðarinnar gæti verið? Hvaða hagsmuni eru hæstv. forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, að verja með því að svíkja kosningaloforð með svo einbeittum hætti og hunsa áskoranir og mótmæli fólksins í landinu?

Ekki er verið að verja kjör heimilanna í landinu. Ekki er verið að verja kjör fyrirtækjanna í landinu og ekki er verið að bæta stöðu ríkissjóðs. Ef tillagan sem er hér til umræðu verður samþykkt án aðkomu þjóðarinnar er ekki aðeins verið að svíkja gefin loforð, heldur er með því líka verið að loka dyrum sem leiða að betra efnahagsumhverfi fyrir Ísland. Ef Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu og tæki upp evru hefði það m.a. í för með sér, samkvæmt hermireikningi sem skýrður er í riti Seðlabankans, riti sem kom út haustið 2012 og fjallar um gjaldeyrismál, að innlendir raunvextir lækki, innlendur fjármagnsstofn stækki og landsframleiðsla á mann hækki varanlega við inngöngu lítils lands eins og Íslands í stærra myntsvæði. Einnig fylgja aðild að ESB og evrusvæðinu kvaðir varðandi stefnuna í ríkisfjármálum og aðra þætti efnahagsstefnunnar sem ætlað er að sporna gegn agaleysi í hagstjórn.

Við höfum búið lengi við mikla verðbólgu og efnahagslegan óstöðugleika, agaleysi í hagstjórn og lausatök í regluverki og eftirliti með fjármálakerfinu fengu að viðgangast á árunum fyrir bankahrunið. Ásamt þátttöku í margvíslegu samráði um efnahagsstefnu og fjármálastöðugleika sem ætti að stuðla að betri stefnu á þessum sviðum fengist með aðild að Evrópusambandinu aðgangur að björgunarsjóðum og sameiginlegu öryggisneti sem ætlað er að takast á við áföll í einstökum ríkjum.

Losun fjármagnshafta er mikilvægt en jafnframt flókið úrlausnarefni. Höftin reyndust mikilvæg við að ná stöðugleika í þjóðarbúskapnum í framhaldi af fjármálaáfallinu. Nauðsynlegt er þó að losa um höftin vegna þess að þau hafa í för með sér kostnað sem vex með tímanum og verður til lengdar meiri en ávinningurinn. Losun fjármagnshaftanna gengi augljóslega greiðlegar ef við gengjum í myntbandalag. Viðskiptaráð áætlar að gjaldeyrishöft hafi kostað íslensk fyrirtæki 80 milljarða kr. í fyrra. Ráðið kallar eftir trúverðugri áætlun um afnám hafta. Ég spyr því, hæstv. forseti: Hvert er plan hæstv. ríkisstjórnar hvað þetta varðar?

Margir hafa orðið til þess að gagnrýna þá ákvörðun stjórnvalda að slíta viðræðum við ESB og meðal þeirra eru forstjórar tveggja stórra alþjóðlegra fyrirtækja hér á landi, Marel og CCP. Þeir benda á að enginn annar valkostur hafi verið dreginn fram og benda einnig á að gjaldeyrishöftin standi nýsköpun hér á landi fyrir þrifum. Ekki ætlum við að nota krónur, er það planið? spurði Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, á iðnþingi á dögunum. Þessari spurningu þurfum við að svara og draga um leið fram hvað það þýðir fyrir atvinnulífið í landinu, samsetningu þess og rekstrarumhverfi og ekki síður hvað það þýðir fyrir heimilin í landinu og velferðina þar sem mjög kostnaðarsamt er fyrir ríkissjóð að halda úti krónunni, minnsta sjálfstæða gjaldmiðli í heimi.

Það er augljós hagur nýsköpunar og hugverkageirans að skipt verði um gjaldmiðil og eini raunhæfi kosturinn fyrir Ísland er evra. Nýsköpunarfyrirtæki sem hafa náð fótfestu ná ekki að blómstra í því umhverfi sem krónan skapar. Þessi fyrirtæki eru mjög mikilvæg fyrir okkur Íslendinga, skapa vel launuð störf og laða að og halda ungu og efnilegu fólki heima. Í sumum tilfellum er það nefnilega þannig að fólk vill ganga í Evrópusambandið til þess að geta haldið áfram að búa á Íslandi.

Virðulegi forseti. Jón Kalman rithöfundur spurði á fundi á Austurvelli á laugardaginn: „Ef ríkisstjórn er andsnúin vilja rúmlega 80% þjóðarinnar, hunsar algjörlega 46 þúsund undirskriftir og kokgleypir í viðbót margítrekuð loforð — fyrir hverja starfar hún þá?“

Ég geri nú í lok minnar ræðu þessa spurningu að minni. Ef hæstv. ríkisstjórn starfar ekki fyrir fólkið í landinu, fyrir hvern starfar hún þá?