143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg skýr stefna Samfylkingarinnar og vilji að þetta ferli haldi áfram, því verði lokið og síðan verði niðurstaðan borin undir þjóðina. Það er hins vegar afskaplega ólíklegt að núverandi stjórnvöld taki undir þá stefnu, enda eru þau með tillögu hér um að slíta viðræðunum. Krafa þjóðarinnar eða þeirra 50 þúsunda sem eru búin að skrifa undir áskorunina er að taka tillöguna, leggja hana til hliðar og þjóðin verði spurð hvort eigi að halda áfram eða slíta. Mér finnst það vera góð sáttatillaga ef ég horfi út frá sjónarhóli stefnu Samfylkingarinnar.

En hv. þingmaður spyr mig um muninn á tillögu Pírata, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar sem gekk út á þjóðaratkvæðagreiðslu með sveitarstjórnarkosningum og síðan tillögu Vinstri grænna. Ég vil frekar fara leið þjóðarinnar en leið Vinstri grænna, þ.e. leið þeirra sem hafa ritað undir áskorunina. Það sem mér finnst eiginlega verst við tillögu Vinstri grænna, þótt ég skilji vel að flokkurinn sé að leita einhverra leiða til að komast út úr þessum vanda, er að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli ekki vera tímasett og ekki sé skýrt um hvað eigi að spyrja. Væntanlega mundi það koma í ljós í meðförum þingsins.

Ég segi bara: Málamiðlunartillagan og leiðin út úr þessum vanda er að leggja þá tillögu sem við fjöllum um hér til hliðar og leyfa þjóðinni að segja hvort við eigum að halda áfram eða ekki. Um það er fólk að biðja.