143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Tillaga okkar vinstri grænna gengur einmitt út á það að mæta þjóðinni og að vísa þessu máli til þjóðarinnar á kjörtímabilinu en við viljum ekki njörva það niður, hvorki nákvæmlega innihald spurningarinnar né tímasetningu, vegna þess að við erum að reyna að ná utan um stærri hóp og viljum að fleiri komi að því hvernig orða eigi þessa spurningu, jafnvel að ákveða hvort það verði fleiri en ein spurning, og hvaða tími henti. Við viljum ekki setja eitthvað niður um það fyrir fram heldur væri það eins og sáttatillaga, menn gætu rætt sig niður á niðurstöðu í þeim efnum.

Nú hefur Samfylkingin kallað mjög á plan B hjá ríkisstjórnarflokkunum ef við höldum ekki áfram á þessari braut með þeim væntingum að ganga inn í Evrópusambandið. Nú kalla ég eftir plani B hjá Samfylkingunni. Hvaða plan hefur Samfylkingin ef niðurstaðan yrði sú að viðræðum yrði haldið áfram og samningur lægi fyrir, hann færi fyrir þjóðina og yrði felldur? Hvert er plan B hjá Samfylkingunni við þær aðstæður?

Það hefur verið svolítið mikið rætt um efnahagsmál í þessu sambandi, gjaldeyrismál og myntina okkar og að taka upp aðra mynt. Nú veit ég að hv. þingmaður þekkir fjárlögin vel og við hvað við höfum verið að glíma undanfarið, að ná stöðugleika og greiða niður skuldir. Ég veit að hún þekkir líka vel að við getum ekki tekið upp evru nema við ákveðnar aðstæður, að við séum búin að ná stöðugleika í þjóðfélaginu. Telur hv. þingmaður, að hugsanlegum samningi felldum, að með því að ná hér stjórn á efnahagslífinu getum við búið áfram á Íslandi?