143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:19]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um mál sem snýr að ákvarðanatöku um hagsmuni Íslands og hvort þeim sé betur borgið innan Evrópusambandsins eða utan. Maður heyrir það í umræðunni að margir hafa komist að niðurstöðu um þetta mál. Stjórnarliðar til dæmis sem ræddu málið í gær höfðu fyrir sitt leyti komist að niðurstöðu út frá skýrslu Hagfræðistofnunar og fannst og finnst ekki tilefni til að ræða það frekar.

Ég er þeirrar skoðunar, og margir eru sammála mér, að ekki sé hægt að taka endanlega ákvörðun fyrr en samningur liggur fyrir og menn eru komnir með allar upplýsingar á borðið. Hér stangast því þær skoðanir á.

Mér finnst kjarni málsins sem við erum að fjalla um vera virðing fyrir ólíkum skoðunum. Það sem við mundum vilja segja við þá sem eru stuðningsmenn þessarar tillögu er: Getið þið borið virðingu fyrir þeirri skoðun okkar að okkur finnst skýrsla Hagfræðistofnunar ekki hinn endanlegi sannleikur í þessu máli? Er hægt að bera virðingu fyrir þeirri skoðun að halda megi áfram með viðræðurnar, og eigi að gera það, til þess að fá allar upplýsingar upp á borðið?

Í kjarnann held ég að þetta sé meginefni þeirra mótmæla sem við höfum upplifað í samfélaginu og þeirra undirskriftasafnana sem hafa verið í gangi, að fólki finnst að verið sé að taka af því réttinn til að segja sína skoðun í málinu og komast að eigin niðurstöðu í málinu.

Mig langar að spyrja hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur um viðbrögð hennar við þessari hugleiðingu.