143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta liggi þannig að með því að halda áfram viðræðum, með því að ljúka samningi, liggur fyrir hvað felst í því að ganga í Evrópusambandið. Með því er ekki verið að taka ákvörðun um að ganga í Evrópusambandið. Það er ekki verið að taka endanlega ákvörðun um það fyrir hönd einhvers að ganga í Evrópusambandið og þannig virða að vettugi skoðanir þeirra sem eru á móti því. Það er einfaldlega verið að fara þess á leit að allar upplýsingar verði fengnar upp á borðið. Þeir sem segja að það sé ekkert um að semja, að það séu engar sérlausnir og engar undanþágur ættu ekki að hafa neinar áhyggjur af málefnastöðu sinni ef það er raunin.

Hér er verið að takast á um grundvöllinn í lýðræðislegri ákvarðanatöku og lýðræðislegu samtali, að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Mér finnst þess vegna og það er mín tilfinning, og ég held að það sé tilfinning sem er að finna víða í samfélaginu, að verið sé að lítilsvirða þá skoðun mína að halda eigi viðræðum áfram og fá alla kosti upp á borðið.

Sumir halda því fram að það sé ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann hjá Evrópusambandinu, það liggi fyrir hvernig hann er. Ef svo væri væri ekki gert ráð fyrir því að ljúka þessu ferli með þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem hin endanlega ákvörðun er í höndum þjóðarinnar.