143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:37]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni sem talaði á undan mér fyrir mjög góða ræðu. Ég er sammála hverju einasta orði sem hún sagði.

Það er svolítið erfitt þegar maður hefur tíu mínútur og svo aftur fimm mínútur í þessu risastóra máli að ætla að reyna að segja eitthvað af viti því að af svo mörgu er að taka. Mig langar aðeins til að koma inn á orðið töfralausn, sem ég veit ekki alveg hvernig kom inn í umræðuna en mér finnst andstæðingar Evrópusambandsins klifa á því að Evrópusambandið sé engin töfralausn. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi nokkurn tíma sagt að Evrópusambandið sé töfralausn, hver byrjaði með það? Það er alveg ljóst að aðild að Evrópusambandinu er kostur sem við þurfum að skoða, það gæti verið góður kostur fyrir Ísland. En það er ekki þannig, eins og við sjáum á þeim fjölmörgu ríkjum sem nú eru í Evrópusambandinu, að aðild að Evrópusambandinu reynist endilega farsæl fyrir öll lönd. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að þjóðir kjósi yfir sig einhverja vitleysinga og vil ég ganga svo langt að nefna vini mína á Ítalíu sem dæmi, þjóð sem kýs yfir sig Berlusconi aftur og aftur á ekki von á góðu og það hefur nákvæmlega ekkert með Evrópusambandið að gera. Þess vegna fer í taugarnar á mér þegar verið er að vísa í Evrópusambandið og það notað sem rök fyrir því að við eigum ekki að ganga í sambandið að segja: Sjáið þið bara Grikkland, sjáið þið bara Spán, sjáið þið bara Ítalíu. Þá erum við að velja þau lönd sem standa okkur fjærst.

Eigum við eitthvað sameiginlegt með Grikklandi? Ég var að sjá það sem ég vissi ekki, að viðskiptajöfnuður hefði mælst jákvæður í Grikklandi í fyrra í fyrsta skipti í 66 ár, ef ég man rétt. Ég sem hef alltaf haldið að vandræði Grikklands hefðu byrjað þegar þeir gengu í Evrópusambandið, að vandræði Grikklands væru Evrópusambandinu að kenna. Þannig hefur umræðan verið.

Mönnum er tíðrætt um atvinnuleysið á Spáni. Er eitthvað líkt með vinnumarkaðnum hér og vinnumarkaðnum á Spáni? Það er þannig víða, og ekki bara á Spáni, að fyrirtæki veigra sér beinlínis við að ráða starfsfólk vegna þess að það getur verið gríðarlega erfitt að segja því upp. Þetta er vandamál, þetta er þekkt vandamál í sumum löndum þar sem vinnumarkaðurinn er ekki, eins og maður getur orðað það jákvætt, sveigjanlegur. Mér finnst því mjög hæpið þegar við erum að bera okkur saman við lönd í Suður-Evrópu þar sem aðstæður eru allt aðrar og jafnvel undirliggjandi spilling og það notað sem rök fyrir því að við eigum ekki að skoða Evrópusambandið, hvað þá ganga í það. Ég held að við ættum að líta okkur nær og horfa á lönd eins og Danmörku, Svíþjóð, Finnland, Þýskaland, Belgíu, Holland og svo get ég áfram talið.

Það er líka þannig að þegar hrunið varð var mjög misjafnt hvernig fór fyrir þjóðum. Ég get ekki séð að það skipti í rauninni máli hvort þjóðir voru í Evrópusambandinu eða ekki. Írar fóru geyst og lentu í vanda, þeir eru í Evrópusambandinu. Sama má segja um Grikkland. Við fengum mikinn skell, ekki verður Evrópusambandinu kennt um það, eða væntanlega ekki. Ég held því að við ættum aðeins að róa okkur í þeirri umræðu sem ég vil kalla „Sjáið þið bara Grikkland“. Sjáum bara samninginn, segi ég, og skoðum svo málið út frá honum.

Það sem mér finnst brýnast, og ég hef oft sagt það áður hér, og er ástæðan fyrir því að ég vil alls ekki að aðildarviðræðunum verði slitið heldur vil klára þær og fá að sjá samninginn, er að við sitjum uppi með ónýtan gjaldmiðil og þjóðin neitar að horfast í augu við það. Það er grafalvarlegt. Stjórnvöld neita að horfast í augu við að við erum með gjaldmiðil sem er ekki gjaldgengur nema í þessu pínulitla hagkerfi hérna og eiginlega varla það. Ég hef ekki heyrt hvaða plan menn eru með. Ég vil kalla eftir því, hæstv. utanríkisráðherra mætti jafnvel koma upp í ræðustól á eftir og útskýra hvert planið í gjaldmiðilsmálum er.

Ég uppgötvaði þetta þegar sonur minn fékk gefins evrur í fermingargjöf. Ég hélt á evrunum og ákvað að fara ekki með þær í banka og skipta yfir í íslenskar krónu heldur setti ég þær ofan í skúffu og þar hafa þær verið vaxtalausar í mörg ár. Það var betri kostur en að skipta evrunum yfir í krónur. Ef maður vill frekar eiga evrur vaxtalaust heima hjá sér en að (Forseti hringir.) fara í bankann og kaupa krónur er eitthvað mikið að.