143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:48]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir fína ræðu. Hún kom mjög vel inn á samanburð við aðrar þjóðir og lífskjör. Af því að hún nefndi að það hefði verið betra að geyma evruna undir koddanum og njóta betri ávöxtunar er það sem betur fer þannig að hagfræðin kennir okkur að það eru líka til huglægir mælikvarðar, þannig að ég hefði hvatt hana til að innleysa þetta strax og fara út í leikfangaverslun og kaupa eitthvað fallegt handa börnunum.

Mig langar að spyrja þar sem hún talaði um Spán og samanburð við Spán. Þegar Spánverjar tóku upp evru á sínum tíma vildi það þannig til að ég var starfandi í ferðaþjónustu. Það skiptir máli á hvaða gengi við förum inn. Evran var of sterk fyrir Spánverja. Ferðaþjónustan, (Forseti hringir.) ég ætla ekki að segja að hún hafi hrunið en hún lenti í erfiðleikum. Ég held áfram með þetta dæmi í seinna andsvari.