143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:49]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég taki það fram geymdi ég þessar evrur áður en lög Seðlabankans um að það ætti að skila gjaldeyri komu til og þeim hefur verið eytt núna, þannig að það sé á hreinu.

Þetta er góður punktur sem hv. þingmaður kemur inn á. Auðvitað skiptir máli hvenær og hvernig það er gert, ef við göngum í myntsamstarfið. Það er nokkuð sem við gerum ekki á einni nóttu, það þarf að vanda vel til.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, þetta olli vandræðum á Spáni og ég veit að til dæmis á Ítalíu, og jafnvel í fleiri löndum, notfærðu seljendur sér það þegar þar var tekinn upp nýr gjaldmiðill og verð hækkaði. Það þarf að vera mjög vakandi fyrir því þegar það gerist.