143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:51]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvort það megi orða það þannig að lífskjör hér á landi séu ótrúlega góð þrátt fyrir krónuna. Við erum rík þjóð og eigum miklar auðlindir og erum vinnusöm. Ég velti fyrir mér hvort við stæðum ekki enn betur ef við hefðum stöðugan gjaldmiðil.

Varðandi ferðaþjónustuna deili ég þeim áhyggjum en ég velti líka fyrir mér hvort við eigum aðeins að vera að keppa í verði, hvort Ísland geti ekki leyft sér að keppa líka í gæðum. Er endilega gott að vera land sem er svo ódýrt að hingað streyma fleiri ferðamenn en við getum tekið á móti? Það væri ekkert endilega svo slæmt að við fengjum stöðugri og sterkari gjaldmiðil sem við nytum þá með öðrum hætti en mundum jafnframt treysta á ferðaþjónustuna þannig að við erum með einstakt land. Það verður alltaf einhver markhópur þarna úti sem er tilbúinn að koma til Íslands, jafnvel þótt við séum ekki ódýrasti kosturinn í boði.