143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að spinna þráðinn áfram með gjaldmiðilinn. Hv. þingmaður sagði í ágætri ræðu sinni að það væri ekkert plan hjá ríkisstjórninni í gjaldmiðilsmálum. Ég er fulltrúi Samfylkingarinnar hér og það er sagt við okkur: Þið talið ekki um neitt nema evru, evra á að vera lausn á öllu. Við höfum aldrei haldið því fram. Svo er spurt: Og ef það gengur ekki eftir, hvert er þá planið? Mér finnst það alltaf dálítið fyndið af því að planið er þá sama plan og hinir flokkarnir hafa sem þeir eru mjög tregir við að leggja á borð fyrir okkur.

Það er nýafstaðið iðnþing þar sem einn framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækis hélt firnagóða ræðu og fór einmitt yfir það hvað væri erfitt fyrir fyrirtæki eins og hans að starfa á Íslandi og ótta hans við það að ekki ætti að klára aðildarviðræðurnar. Mig langaði að heyra: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér fyrirtækjaflóru og atvinnulíf á Íslandi (Forseti hringir.) við óbreytt ástand eftir sirka tíu (Forseti hringir.) ár?