143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega svolítið merkilegt þegar fulltrúar launafólks og fulltrúar atvinnurekenda eru samhljóða í kröfum sínum.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tókst með ótrúlegum árangri að rétta hér af efnahagslífið. Það var 3,3% hagvöxtur hér á síðasta ári, það dróst verulega úr atvinnuleysi en það er áhyggjuefni að vegna krónunnar og ýmissa annarra aðstæðna — hér féll ekki bara bankakerfið heldur líka gjaldmiðillinn — þá búum við við talsvert lakari lífskjör en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. En þetta er ekki bara spurning um lífskjörin heldur hvers konar fyrirtæki ná að blómstra hérna. Fyrirtæki sem er með vinnuafl getur farið hvert sem er í heiminum ef lífskjör eru ekki (Forseti hringir.) sambærileg við það sem gerist víða annars staðar. (Forseti hringir.)

Þess vegna spyr ég aftur: Hvaða atvinnutækifæri bíða barnanna okkar hér (Forseti hringir.) við óbreytt ástand?