143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er á vefmiðlum að eitthvað sé að gerast í þessa veru. Við höfum hins vegar ekki fengið neinar staðfestingar á því, þetta eru enn sögusagnir en ég hygg að um leið og við höfum einhverjar upplýsingar sem mark er á takandi um þetta sé eðlilegt að sjávarútvegsráðherra og hugsanlega utanríkisráðherra mæti fyrir utanríkismálanefnd og fari yfir málið út frá þeirri vitneskju sem við höfum þá. Við höfum fram að þessu komið báðir fyrir nefndina til að fjalla um þetta mál en sé þetta rétt er það vitanlega áhyggjuefni og við hljótum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvað Evrópusambandið hafi meint með þeim viðræðum og þeim loforðum sem það hafði gefið okkur. Hvað vakir fyrir Færeyingum? Við vissum að Norðmenn voru að leika býsna ljótan leik í þessu öllu saman.

Sé þetta rétt er eðlilegt að utanríkismálanefnd komi saman á morgun eða hinn og við förum þá yfir málið — þegar við vitum eitthvað meira. Í dag er þetta bara frétt úr Morgunblaðinu og einhverjar sögusagnir sem við heyrum þannig að við bíðum eftir því að fá staðfestingu á því hvort þetta er rétt eða ekki.