143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum ekki að vera í efnahagsbandalagi til að geta átt samskipti á viðskiptalegum forsendum við aðrar þjóðir, ekki frekar en við þurfum að vera í hernaðarbandalagi. Ég tel að við höfum fulla burði til þess, séum það rík af auðlindum og höfum það mikla möguleika á að eflast og höfum margt fram að færa, að aðrar þjóðir hafi áhuga á og hag af því að eiga viðskipti við okkur.

Við erum með EES-samninginn, sem er Evrópska efnahagssvæðið, hann verður áfram til staðar og hann þarf að bæta. Ég mundi ekki skrifa upp á það að ganga í Evrópusambandið þó að við fengjum einhverjar undanþágur varðandi sjávarútvegsmálin. Í mínum huga er þetta miklu stærra mál en svo. Það er lýðræðishalli, tel ég vera, á Evrópusambandinu. Maður horfir til dæmis bara á ójafnræði hvað varðar konur í forustu innan Evrópusambandsins, í framkvæmdastjórninni. Það er fátt um fína drætti þar hvað varðar kvenfólk.

Ég óttast líka hina miklu fjarlægð Íslands frá höfuðstöðvunum í Brussel. Ég hef búið úti á landi alla tíð og þurft að sækja mikið á höfuðborgarsvæðið og ég er ekki mjög spennt fyrir því að taka það enn þá lengra, alla leiðina til Brussel. Mér finnst líka mjög hættulegt að völd þjappist langt í burtu miðlægt í miðri Evrópu frá litla Íslandi úti í ballarhafi.