143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lýðræðishallinn er mestur í því að eiga enga aðkomu að þeim lögum sem sett eru hér í landinu og eru einmitt sett í Brussel. Fjarlægðin er mest í því fólgin að eiga engan fulltrúa í Brussel þar sem drjúgur hluti af okkar löggjöf er settur.

Hv. þingmaður talar um fullveldi, talar um að auka tiltrú á íslensku krónunni. Það er 100 ára saga um það að íslenska krónan er vondur gjaldmiðill. Það mun taka áratugi að skapa einhverja tiltrú á þann gjaldmiðil. Í þá áratugi verða hér gjaldeyrishöft. Er það fullvalda þjóð sem getur ekki leyst út gjaldeyri erlendra manna í sínu eigin landi? Er það fullvalda þjóð sem ljósritar lög sem aðrar þjóðir setja fyrir hana? Er það fullvalda þjóð sem felur eftirlitsstofnunum annarra ríkja heimildir til að loka bönkum sínum, til að sekta flugfélögin sín og til að taka margvíslegar aðrar ákvarðanir um mikilvæga hagsmuni Íslands án nokkurrar aðkomu Íslendinga eða lýðræðis okkar?