143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hv. þingmaður skauta yfir að það var hér eitt stykki hrun árið 2008. Við erum auðvitað stödd í mjög einkennilegu umhverfi í kjölfar hrunsins. Það er ekki eitthvað sem nú hefur verið viðvarandi, þessi gjaldeyrishöft, og við þekkjum öll þá sögu, ég þarf ekki að fara yfir hana hér.

Við vitum að ástandið í Evrópu er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Þar er hagvöxtur innan við 1%, hér er hagvöxtur að meðaltali undanfarin ár 2,5%, 3% fyrir síðasta ár. Atvinnuleysi í Evrópu er allt að 25% og enn meira hjá ungu fólki og þar hafa 11 milljónir verið atvinnulausar í meira en eitt ár. Við vitum að mikil hætta er á því að ef við göngum í Evrópusambandið og tökum upp evru í framhaldinu verði efnahagssveiflum stjórnað og stýrt með auknu atvinnuleysi hér innan lands. Það er ekki það sem ég vil sjá.