143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er þessi blessuð króna okkar sem hefur fylgt okkur ansi lengi, henni er kennt um allt og að hún beri ábyrgð á miklu. Við vitum að við þurfum að glíma áfram við gjaldmiðilinn okkar, ég er alveg sammála því. En eins og ég hef sagt, og er ekki ein um það, er aðalmálið náttúrlega að koma á efnahagslegum stöðugleika og ná niður verðbólgu á Íslandi og þá yrði krónan auðvitað í allt öðru umhverfi.

Eins og ég nefndi áðan hefur sjávarútvegurinn hagnast mjög mikið undanfarin ár á genginu en núna er krónan að styrkjast til hagsbóta fyrir okkur sem búum hérna og þá kvarta útflutningsaðilar sem hafa verið að hagnast á lágu gengi krónunnar. En einhvers staðar hlýtur þetta jafnvægi að vera. Við getum ekki tekið upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið og við þurfum að ná ákveðnum efnahagslegum markmiðum til að svo sé hægt. Peningastefnunefnd er að störfum til að meta kosti og hvort einhverjir möguleikar séu í stöðunni. En einhvern veginn ætlum við að halda áfram að glíma við þessi mál varðandi gjaldmiðilinn ef niðurstaða verður sú að þjóðin, að fenginni einhverri niðurstöðu í samningum, fellir það að ganga í ESB. Þetta verkefni fer ekkert frá okkur. Við þurfum að glíma við það hvort einhver möguleiki sé á að tengja gjaldmiðil okkar öðrum gjaldmiðli. Efnahagskerfi okkar er auðvitað mjög lítið og smátt í samanburði við efnahagskerfið í Evrópu, það er bara staðreynd.