143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það væri trúlega búið að fá mig til starfa í Seðlabankanum ef ég kynni lausn á því máli sem við erum að glíma við, höfum glímt við undanfarin ár og erum enn að glíma við varðandi gjaldmiðilinn okkar. En ég velti fyrir mér að evran reyndist nú Írum ekkert sérstaklega vel þegar kreppan skall á þá. Þá var hún ekki eitthvert lausnarorð og þeir tóku miklar dýfur í því áfalli og kreppunni. Maður spyr sig þá líka um lönd eins og Svíþjóð, Danmörk, Bretland — Noregur er utan ESB — af hverju eru þau lönd með sinn gjaldmiðil?

Ég er alveg sammála hv. þingmanni að við þurfum auðvitað að vinna áfram í peningastefnumálum okkar við losun gjaldeyrishafta. Það er gífurlega erfitt verkefni sem okkar færustu sérfræðingar leggja vonandi nótt við dag í að reyna að finna einhverja lausn á.