143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að við megum passa okkur á því að máta okkur ekki alveg inn í Evrópusambandið og telja að hagur okkar verði nákvæmlega eins og hagur í einhverju öðru landi Evrópusambandsins, því að innan sambandsins er auðvitað mjög ólíkt umhverfi. Við þekkjum löndin suður frá, Spán, Portúgal, Grikkland og Ítalíu, en í Frakklandi og Þýskalandi og hjá þessum ríkari þjóðum býr fólk við allt annan veruleika og þar er margt ólíkt innbyrðis.

Ég tel að ef niðurstaðan yrði sú að við mundum ganga í Evrópusambandið þá verðum við að átta okkur á að við erum mjög rík þjóð og við mundum vera í því hlutverki að við mundum leggja miklu meira inn í sameiginlega sjóði en við fengjum til baka af því að á mælikvarða evrópskra þjóða erum við með ríkari þjóðum. Við mundum auðvitað leggja miklu meira í púkkið en við fengjum til baka. Það er bara eðlilegt miðað við þjóðartekjur hér á hvern einstakling.

Við eigum líka að halda því til haga og vera stolt af því að okkur hefur gengið þetta vel að ná okkur aftur á strik eftir kreppuna. Núverandi ríkisstjórn getur ekki hrósað sér mikið af því en vonandi glutrar hún því ekki öllu niður sem áunnist hefur. Það er okkar hagur að hlutirnir gangi vel í Evrópusambandinu, vonandi gera þeir það því að við höfum auðvitað mikil viðskipti við Evrópuþjóðir. En það breytir því ekki að ég held að við getum virkilega staðið á eigin fótum þótt við stöndum utan Evrópusambandsins, við höfum fulla burði til þess. En það skiptir máli hvort hér er í landinu hægri eða vinstri stjórn.