143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér létti mikið þegar ég skildi að hv. þingmaður var ekki að vísa í ræðu mína þegar hann var að tala um að hann hefði næstum verið hættur við, að hann væri þá að tala um að hann ætlaði ekki að hlusta lengur á mína ræðu, eftir ákveðinn tíma. En hann var að tala um allt þetta ferli og ég er honum bara hjartanlega sammála um það.

Í ræðu minni hvatti ég hæstv. utanríkisráðherra til að sjá endinn á þessari bíómynd svo að hann vissi hvernig hún væri og þjóðin fengi að dæma hvað kæmi út úr þessari bíómynd, sem við nefnum svo sem myndlíkingu. Ég held að úr því sem komið er sé arfavitlaust að halda að hægt sé að troða þessu aftur til baka ofan í kokið á þjóðinni. Við eigum að horfa til lýðræðisins og taka þjóðina með okkur í þessa vegferð og ljúka henni saman og treysta á skynsemi (Forseti hringir.) hennar til að meta kosti og galla með eða á móti inngöngu í Evrópusambandið.