143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Það er vissulega rétt, ég verð að viðurkenna að ég hef heldur ekki heyrt neitt annað plan, en þegar kemur að peningastefnu almennt get ég samt sem áður ekki annað en velt fyrir mér hvort við værum betur stödd með evru.

Svo er hitt, það hlýtur að taka gríðarlega langan tíma að taka upp evru. Þá kemur að annarri spurningu um nokkuð sem ég hef áhuga á að vita meira um. Það eru ýmis efnahagsleg skilyrði fyrir því að taka upp evru, jafnvel ef við gengjum í Evrópusambandið á morgun tæki það sinn tíma að taka upp evruna þannig að við þyrftum alltaf eitthvert skammtíma- eða millitímaplan til að gera efnahag okkar þannig að hann væri samhæfur evrunni. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti eitthvað frætt mig um það hvernig við gætum skapað þau skilyrði, þ.e. gert efnahaginn þannig (Forseti hringir.) að við uppfyllum þau skilyrði sem þarf til að taka upp evru, jafnvel eftir að við gengjum í Evrópusambandið.