143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Út af fyrir sig skilur maður það að í þeirri hryllilegu stöðu sem þar var upp komin sáu menn ákveðið haldreipi í því að hafa þó þennan stóra gjaldmiðil. Flestir voru sammála um að ef Grikkir hefðu orðið að hrekjast út úr evrunni, hverjar sem afleiðingarnar hefðu orðið fyrir Evrópusambandið eða evruna, hefði það verið skelfilegra fyrir Grikkland. Þá hefðu þeir setið uppi með kolónýta drökmu, eða hvernig sem í ósköpunum það nú hefði orðið, þannig að ég veit ekki hversu sterk rök það eru í sjálfu sér.

Hitt sem er mér umhugsunarefni út frá mínum sjónarhóli er það sem hefur alltaf verið einn af þeim fyrirvörum sem ég hef haft gagnvart aðild að Evrópusambandinu, það eru auðvitað markaðsöflin og fjármagnið, kapítalið, eins og einhverjir hefðu nú einhvern tíma sagt, sem ráða mjög miklu þegar á hólminn er komið og slegin er skjaldborg um það. Mér finnst það athyglisvert þegar stofnun eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem ekki hafði orð á sér fyrir að vera beinlínis róttækur fær orðið betri ummæli frá þeim (Forseti hringir.) sem hafa verið að glíma við þá en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sjálfs.