143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:00]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þingmaður segir í fyrirvörum sínum gagnvart Evrópusambandinu. En mér finnst mikilvægt að Íslendingar og rödd Íslendinga heyrist á þeim vettvangi og að sjónarmið okkar komi fram þar, bæði í samskiptum Evrópusambandsins við þjóðir í kröggum og á jaðarsvæðum og í þróun og framþróun og framtíðarmótun Evrópusambandsins. Mér finnst skipta miklu máli að við séum þátttakendur þar, ekki bara vegna þess sem við getum fengið út úr því sem þjóð, heldur líka vegna þess að mér finnst það vera skylda okkar að vera þátttakendur í því samtali.

Ég fer heldur ekki ofan af því að mér hefur blöskrað það í langan tíma að Íslendingar geti ekki verið meiri þátttakendur í mótun þeirrar löggjafar sem þaðan kemur og við tökum upp hér á Íslandi.