143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek eftir því að hv. þm. Róbert Marshall fær ekki þær einkunnir sem hann óskaði eftir af forsetastóli, en ég þakka honum engu að síður fyrir þennan skýra málflutning vegna þess að hann dregur fram þá miklu veikleika sem eru í öllum þeim hugarburði um að hér sé allt í lagi en allt sé vont í Evrópu og íslenska krónan sé ósköp góð en þetta sé agalegt í Evrópu. Staðreyndin er sú að það eru ósköp fáir í heiminum sem vilja kaupa eða selja íslenskar krónur, en evran gengur kaupum og sölum á hverjum degi.

Það er hins vegar þannig að við erum að kaupa og selja krónur í einhverjum fölskum veruleika á hundrað fimmtíu og eitthvað krónur. Annars staðar er verðið á henni um tvö hundruð þrjátíu og eitthvað krónur. Ef viðskipti væru gefin frjáls og gjaldeyrishöft afnumin af íslensku krónunni mundi það væntanlega þýða að á frjálsum markaði mundi gengi hennar nálgast það gengi sem er á aflandsmarkaðnum, þ.e. hún mundi falla umtalsvert.

Getur þingmaðurinn farið aðeins yfir það hvaða áhrif það mundi hafa á þau lífskjör sem þó er haldið uppi hér í landinu núna?