143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka skýr svör forseta. Mig mundi þá langa til að biðja forseta að athuga hvort ráðherrarnir gætu gert okkur þann heiður að vera viðstaddir umræðuna á morgun, þá hafa þeir töluverðan tíma til að undirbúa sig undir það. Ég held að þeir mundu bæði gera okkur hér greiða og fólki sem fylgist mikið með þessari umræðu. Nálægt 50 þús. manns hafa lagt til að þessi tillaga verði borin til baka, ekki síst í ljósi loforða sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gáfu fyrir síðustu kosningar. Mig langar að biðja hæstv. forseta um að tala við þetta ágæta fólk og athuga hvort það geti ekki sýnt þinginu þá virðingu að vera hér á morgun.