143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur verið um þá mörgu góðu kosti við það að gerast aðili að Evrópusambandinu og auðvitað líka þær áskoranir og ögranir sem því fylgja og hagsmuni Íslands sem við yrðum að tryggja í aðildarviðræðum við sambandið, einkanlega varðandi fiskinn í sjónum og yfirráð okkar yfir auðlindum.

Það er mikilvægt að við nálgumst ekki þessa umræðu og yfir höfuð okkar þjóðfélagsumræðu með patentlausnum, ekki um stöðuga hagstjórn sem allt muni leysa eða um evruna, gjaldmiðilinn eina sem allt muni leysa. Það er um leið mikilvægt að við Íslendingar hættum að berja höfðinu við steininn eins og nátttröll því að þó að það sé vissulega ekki öruggt að okkur muni vegna vel með nýjan gjaldmiðil, evruna eða í aðdraganda þess í EMR II-myntsamstarfinu í Evrópu, þá er hitt algerlega fullreynt. Íslenska krónan er ekki nýtileg til hagstjórnar. Það er búið að reyna það í nærfellt 100 ár með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í landinu, gríðarlegum sveiflum í hagstjórn, gjaldþrotum fjölda fyrirtækja, gríðarlegum fjárhagsörðugleikum fjölmargra kynslóða sem hafa orðið fyrir því að eignir þeirra hafa í einu vetfangi verið af þeim teknar.

Lokatilraunin með þennan gjaldmiðil var gerð hér upp úr aldamótum þegar hann var settur á flot með verðbólgumarkmiði. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson, sem ekki treysti sér til að taka þátt í umræðum, taldi að það væri lokatilraunin með íslensku krónuna. Sú lokatilraun endaði í efnahagslegu þroti Íslands og því að við urðum að setja lög sem bönnuðu fólki að taka peningana sem það átti hér í landinu. Sú staða er enn uppi.

Við alla þá erfiðleika sem þessum litla gjaldmiðli hafa fylgt áður mun nú bætast að það hefur enginn tiltrú á honum. Það mun ekki bara taka mörg ár heldur áratugi, ef það er yfir höfuð hægt, að byggja upp slíka tiltrú. Til að ná efnahagslegum stöðugleika þurfum við að ná tiltrúnni. Þetta er kallað á ensku „catch 22“, hvort vinnur gegn öðru. Það er hins vegar ekki þar með sagt að með því að ljúka aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, tryggja hagsmuni Íslands og yfirráð yfir fiskimiðunum, semja um aðild að evrópska myntsamstarfinu og fara síðan í fyllingu tímans, eftir að hafa náð stöðugleika í okkar efnahagsmálum í evrópska myntsvæðinu, í evrusamstarfið muni öll okkar vandamál leysast.

Við getum alveg lent aftur í einhverjum efnahagslegum ógöngum með nýjan gjaldmiðil. Spurningin sem við verðum að svara er þessi: Er líklegra að við getum náð meiri efnahagslegum stöðugleika og lægri vöxtum fyrir fólk og fyrirtæki í landinu, haft betri aðgang að fjármagni til að nota í fjárfestingar og arðbær verkefni og til að bæta hér og efla lífskjör á næstu árum og áratugum — er líklegra að við getum náð þessum markmiðum, ef við vöndum okkur og leggjumst öll á eitt og ytri skilyrði eru okkur hagfelld, með því að taka þátt í evrópska myntsamstarfinu og taka síðan upp evruna eða með því að reyna enn og aftur þann gjaldmiðil sem við erum búin að reyna í nærfellt 100 ár?

Niðurstaða Seðlabankans þar sem okkar helstu sérfræðingar í þessum málum eru var ótvíræð. Það eru minni líkur en meiri, eins og þeir ágætu og orðvöru sérfræðingar bankans sögðu, að við séum í betri færum til að ná hér efnahagslegum stöðugleika með eigin gjaldmiðli en áður vegna þess einfaldlega að við höfum ekki (Forseti hringir.) náð efnahagslegum stöðugleika með honum. Það er einfaldlega fullreynt og þó að evran og evrópska myntsamstarfið sé ekki patentlausn, ekki lokalausn þá er hún betra tækifæri til þess arna.