143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefnir einmitt tíma sem mér þykja mjög áhugaverðir svona í seinni tíma sögu Íslands og sérstaklega þegar kemur að Evrópusambandinu. Þegar við tölum um Evrópusambandið erum við alltaf að horfa til framtíðar, eins og er jú svo mikið í tísku, hjá sumum meira en öðrum. En mér finnst mikilvægt að við gerum okkur ljóst að til þess að horfa til framtíðar þurfum við að átta okkur á því hver fortíðin hafi verið.

Þótt ég sé ungur að árum man ég mjög vel eftir einkavæðingu bankanna, ég man mjög vel eftir því hvernig andrúmsloftið var á Íslandi almennt. Það var oft talað um sólgleraugu þáverandi hæstv. forsætisráðherra vegna þess að allt var svo bjart og frábært og dásamlegt og það var endalaust sólskin og ekkert slæmt að koma fyrir. Nema hvað? Jú, jú, eitthvað slæmt kom fyrir. Mér finnst mikilvægt að þegar við ræðum Evrópusambandið og allt sem það varðar þá séum við líka meðvituð um hvað það var sem fór úrskeiðis hér, burt séð frá krónunni og burt séð frá þeim efnahagslegu þáttum sem knýr fólk til að vilja kannski ganga inn í Evrópusambandið, að minnsta kosti á efnahagslegum forsendum og sérstaklega þegar kemur að gjaldmiðlinum.

Hér voru mistök gerð, að mínu mati mikil mistök og mörg, og ég skrifa það á flokka, það getur verið, en líka á þekkingarleysi og reynsluleysi íslensku þjóðarinnar. Með því á ég við alla, þar á meðal hæstv. ríkisstjórn, þáverandi og núverandi, og alla, bankakerfið, íslenska viðskiptamenn o.s.frv. Mér sýnist einhvern veginn eins og allt hafi klikkað en fyrst og fremst af ákveðnu reynslu- og þekkingarleysi gagnvart peningakerfinu, lánaumhverfinu o.s.frv.

Ég velti fyrir mér, þegar við höldum áfram þessari umræðu um Evrópusambandið, hvað af þeim (Forseti hringir.) lexíum hv. þingmaður telji mikilvægast að við höfum í huga til að forðast að gera sömu mistökin aftur, burt séð frá Evrópusambandinu.