143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef margítrekað það að það eru engar töfralausnir til til að ná stöðugleika á Íslandi eftir þær miklu efnahagssveiflur sem hér hafa verið. Ég hef sagt að sumt er fullreynt. Það er fullreynt að íslenska krónan sé tæki til þess. Aðrir valkostir en evrópska myntsamstarfið eru ekki fyrir hendi. Þeir sem veifuðu hér kanadadollara og norskum krónum og einhverjum öðrum leiðum eru löngu hættir að tala um það. Okkar helstu sérfræðingar í Seðlabankanum hafa gert greinargóða skýrslu um að valkostirnir eru tveir, íslenska krónan, og hún mun ekki duga, það vitum við, og evran, hún gefur þann möguleika. Sannarlega mundi það hjálpa okkur til að sýna ráðdeild, til að mynda ef í hinu evrópska samstarfi verða settar reglur um ríkisfjármál að þýskri fyrirmynd með þeim aga sem menn hafa tamið sér á meginlandinu. (Forseti hringir.) Ég held að það sé nú kannski það sem við ættum einkum að sækja í samstarfið, bæði í evrunni og í ríkisfjármálunum, þ.e. aga og aðhald fyrir okkur.