143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:34]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og mig langar að þakka fyrir þessa umræðu. Umræðan sem við eigum hérna um Evrópusambandið og stöðu mála eins og hún er í dag er mjög góð að flestu leyti. Ég mundi gjarnan vilja ræða þessa hluti út frá niðurstöðu eftir samningaviðræður, við værum að ræða um staðreyndir málsins. Ég hef persónulega grætt mikið á umræðunni og mér finnst mjög miður að hún sé enn þá bara spekúlasjónir þrátt fyrir að hún sé byggð á skýrslum og tilfinningum manna í þeim skýrslum.

Það er annað sem mér finnst líka slæmt í umræðunni, það er þessi eilífa fortíðartenging. Mér finnst oft koma upp í umræðunni ásakanir um að einhver hafi sagt þetta eða hitt, eitthvað var gert svona eða hinsegin, og það einhvern veginn afsaki eða útskýri af hverju menn megi gera hlutina svona í dag. Mér finnst það mjög miður.

Þá langar mig að sjá hvort möguleiki væri á að spyrja hv. þingmann sem fyrrverandi stjórnarþingmann hvort hann teldi að draga mætti einhvern lærdóm af þátttöku sinni í þessu ferli á síðasta kjörtímabili, sem hefði jafnvel verið mistök eða eitthvað sem væri hægt að viðurkenna sem mistök og við gætum þá haldið áfram þaðan. Af því að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson var að ræða um lærdóm þá langar mig aðeins að heyra hugleiðingar hv. þm. Helga Hjörvars um hvort mögulega væri hægt að gangast við einhverjum mistökum á síðasta kjörtímabili og þá gætum við bara haldið áfram, sérstaklega þar sem hæstv. ráðherra er í salnum.