143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að mikilvægt er að ræða ólík sjónarmið og það er líka mikilvægt að bera virðingu yfir ólíkum sjónarmiðum. Það er kannski það sem hefur hleypt hitanum í umfjöllunina í þinginu. Ef ríkisstjórn Íslands vill svíkja kosningaloforð sín og efna ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna og láta þær bara vera áfram í hléi þá er það algerlega á valdi ríkisstjórnarinnar. En að koma með tillögu um að slíta viðræðum er meðvituð ákvörðun um að reyna að koma í veg fyrir að umræður um skiptar skoðanir á aðild að Evrópusambandinu fari fram á Íslandi næstu 10, 20, jafnvel 30 árin. Og það er (Forseti hringir.) hótun sem er full ástæða til að gera sitt ýtrasta til að koma í veg fyrir að nokkurn tíma verði að veruleika.