143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

makríldeilan.

[11:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Kolröng mynd er dregin upp af þeirri atburðarás sem átt hefur sér stað undanfarna mánuði og ár vegna makríldeilunnar af hv. þingmanni. Eins og allir vita hefur Ísland setið við samningaborðið, síðast fyrir örfáum dögum, og ráðherrar í ríkisstjórninni hafa verið vel upplýstir, utanríkismálanefnd þingsins sömuleiðis vegna þeirra átaka sem hafa verið um skiptingu makrílheimilda og makrílstofnsins milli landanna. Sá ágreiningur hófst seint á síðasta kjörtímabili.

Nú gerast þeir atburðir síðustu sólarhringana að þeir sem við höfum átt í viðræðum við ákveða að funda sameiginlega án aðkomu Íslands. Sú ákvörðun þessara aðila að stíga þannig fram, grípa til þess ráðs að útiloka menn frá samningaborðinu er forkastanleg. Við ættum að vera sammála um það hér á þinginu, sama hvar í flokki við erum. Þrátt fyrir að menn sjái mögulega einhver sóknarfæri tímabundið í pólitíkinni hér heima fyrir vegna þessarar niðurstöðu, hljótum við geta verið sammála um að það er forkastanlegt af hálfu vinaþjóða okkar, nágrannaríkja, að koma saman vitandi vits án aðkomu Íslendinga og gera með sér samkomulag án þess að okkur sé einu sinni hleypt að samningaborðinu. Um það ætti umræðan í þessu tilviki að snúast. Við eigum að senda ákveðin og skýr skilaboð til Norðmanna, til Færeyinga, til Evrópusambandsins og annarra þeirra sem hafa þóst vera í eiginlegum samningaviðræðum við okkur um að við kunnum þetta ekki vel að meta og Alþingi Íslendinga fordæmir þessi vinnubrögð (Forseti hringir.) og áskilur sér allan rétt í framhaldinu til eðlilegrar hlutdeildar í makrílstofninum.