143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

nýjar upplýsingar um hagvöxt.

[11:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þau tíðindi bárust um síðustu helgi að landsframleiðslan hefði aukist að raungildi um 3,3% árið 2013 sem staðfestir þann viðsnúning í efnahagsmálum sem fyrri ríkisstjórn náði fram. Hagvöxtur á Íslandi hefur ekki verið meiri en frá árinu 2007 og landsframleiðsla hefur ekki verið hærri að raungildi frá árinu 2008. Það er utanríkisverslun sem knýr hagvöxtinn áfram samkvæmt greiningu Hagstofunnar því að þjóðarútgjöldin jukust aðeins lítillega eða um 0,1%.

Það sem vekur athygli þegar maður sér þessar tölur er að þær sýna að núverandi ríkisstjórn tók við miklu betra búi en hún hefur látið í veðri vaka. Ríkisstjórnin fór í miklar aðgerðir þegar hún tók við völdum til að mála skrattann á vegginn við gerð fjárlaga 2014. Meðal annars var ein af forsendum fjárlagafrumvarpsins 2014 að vöxtur árið 2013 yrði 1,7%, helmingi minna en raunin varð og talsvert minna en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Líklega er hér enn einn misskilningurinn á ferð og það hlýtur að vekja upp spurningar því að sú mynd sem ríkisstjórnin dró upp í vor, sem og einbeittur vilji sem hún sýndi við að draga úr tekjuöflun — þar nægir auðvitað að nefna virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og sérstök veiðigjöld — var nýttur til að réttlæta þær aðgerðir sem var ráðist í í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. sársaukafullan niðurskurð með tilheyrandi uppsögnum og fyrir utan það að ekki var hafist handa við mjög mikilvæga uppbyggingu.

Ég nefni heilsugæsluna þar sem núna er verið að segja upp hjúkrunarfræðingum. Ég nefni framhaldsskólana þar sem ég veit að hæstv. fjármálaráðherra þekkir mætavel að rekstrarstaðan er mjög þröng og lítið svigrúm til að gera nokkuð.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvernig stóð á því að ríkisstjórnin kaus að mála hér skrattann á vegginn? Er hæstv. ráðherra mér ekki sammála um að ríkisstjórnin tók við miklu betra búi en hún vildi vera láta? Er ekki ástæða til þess að endurskoða einhverjar af þeim niðurskurðaraðgerðum sem ráðist var í í fjárlögum 2013 og verður líklega hvort eð er ómögulegt að fylgja eftir?