143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

nýjar upplýsingar um hagvöxt.

[11:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það er sannarlega ástæða til að halda áfram að byggja upp innviði og styrkja þá. Heilsugæslan er nefnd hér til sögunnar, við höfum tekið upp komugjöld þar upp á 90 millj. kr. Það er ekki eitthvað sem ætti að valda mjög miklum áhyggjum í heildarsamhengi hlutanna þegar um er að ræða slíkar fjárhæðir.

Skattstefna þessarar ríkisstjórnar er gjörólík þeirri sem hér var áður. Við lögðum miklu meiri þunga á bankaskattinn en fyrri ríkisstjórn og sækjum þangað um 40 milljarða, m.a. til þess að fjármagna sérstakar aðgerðir sem koma til framkvæmda á næstu árum. Við léttum af tekjuskatti, við léttum af tryggingagjaldi og við framlengjum ekki auðlegðarskattinn og við drógum úr hugmyndum um hækkun veiðigjaldanna. Þannig vil ég halda því fram að það sé um 25 milljarða munur á skattstefnu þessarar ríkisstjórnar og þeirrar sem áður var þegar kemur að því hvað sótt er í vasa heimilanna og fyrirtækjanna í landinu, annarra en slitabúa og stórra fjármálafyrirtækja. (Forseti hringir.) Á þessu er grundvallarmunur og ég tel að það muni skipta sköpum fyrir einmitt hagvöxtinn, (Forseti hringir.) losna muni úr læðingi ýmsir kraftar sem ella hefðu verið undir þungu skattafargi.